*

föstudagur, 5. júní 2020
Fólk 21. júlí 2019 19:01

Alvarlega veikur af útivistabakteríu

Helgi Jóhannesson, nýjum yfirlögfræðingi Landsvirkjunar, finnst fátt skemmtilegra en að fara í fjallgöngu í íslenskri náttúru.

Magdalena A. Torfadóttir
Helgi Jóhannesson er nýr yfirlögfræðingur Landsvirkjunar.
Eva Björk Ægisdóttir

Helgi Jóhannesson var nýverið ráðinn í starf yfirlögfræðings Landsvirkjunar. Helgi á að baki langan feril í lögmennsku en hann starfaði hjá lögmannsstofunni Lex um árabil og var einnig einn af eigendum stofunnar. Áður rak hann eigin lögmannsstofu í félagi við aðra.

„Ég hef starfað í lögmennsku í 31 ár og elskað hvern einasta dag,“ segir Helgi og bætir við að hann hafi ekki verið að leita sér að nýju starfi þegar hann sá yfirlögfræðingsstöðuna auglýsta.

„Ég einfaldlega sá starfið auglýst og ákvað að þetta væri eitthvað fyrir mig. Ég tel að starfsemi Landsvirkjunar sé afar mikilvæg fyrir Ísland og er spenntur fyrir því að takast á við ný verkefni.“ Hann bætir við að þetta sé líklega ein af fáum stöðum sem hann hefði getað hugsað sér að skipta lögmennskunni út fyrir.

Helgi er með kandídatspróf í lögfræði frá Háskóla Íslands og réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi og Hæstarétti. Hann er jafnframt með LL.M gráðu frá lagadeild Háskólans í Miami. Helgi hefur verið virkur í félagsstörfum en hann var stjórnarmaður og formaður Lögfræðingafélags Íslands og Lögmannafélags Íslands.

Helgi segist vera alvarlega veikur af útivistarbakteríu en að hans sögn kviknaði áhugi hans á útivist þegar hann var ungur. „Ég hef alltaf verið mikill sveitakarl. Þegar ég var ungur beið ég spenntur allan veturinn eftir því að komast í sveitina í Hrútarfirði á sumrin.“

Hann bætir við að ástríða hans á fjallgöngu hafi byrjað þegar hann þegar hann gekk á Hvannadalshnjúk í fyrsta sinn árið 2006. „Síðan útskrifaðist ég frá leiðsöguskólanum í Kópavogi árið 2013 og sé nú um fjallaskíðaprógramm fyrir Ferðafélag Íslands ásamt Tómasi Guðbjartssyni lækni.“

Í vor hefur Helgi meðal annars klifið Hvannadalshnjúk, Heklu og Snæfellsjökul ekki aðeins einu sinni heldur tvisvar sinnum. Hann hyggst nýta sumarfríið í útivist og samverustundir með fjölskyldunni en bætir þó við að útivera hans einskorðist ekki við sumartímann heldur reyni hann að nýta vetrarhelgarnar til hins ýtrasta.

„Í júní fór ég í hjólaferð til Toskana héraðs á Ítalíu og ég stefni á að fara í fjallaklifurferð í Dólómítana í lok ágúst.“ Sambýliskona Helga er Þórný Jónsdóttir markaðsfræðingur, en Helgi á þrjú börn frá fyrra hjónabandi.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.