Þingmenn Samfylkingarinnar gerðu alvarlega athugasemdir við það hvernig þingsályktun um að draga til baka umsókn um Evrópusambandið hafi verið sett á dagskrá í þinginu.

Oddný G. Harðardóttir var fyrst á mælendaskrá þegar þingfundur hófst í dag og gerði athugasemd við fundarstjórn forseta. Hún greindi frá því að á föstudagskvöld hefðu þingmenn fengið SMS um að þingsályktunartillagan hefði verið birt á Alþingi.

Oddný sagði að það væri með ólíkindum að tillögu um að slíta aðildarviðræðum væri dreift áður en skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um aðildarviðræðurnar hefði fengið þinglega meðferð.

„Það er sjálfsögð krafa að málið verði ekki sett á dagskrá fyrr en skýrslan sem átti að undirbyggja umræðuna hafi fengið þinglega meðferð bæði í nefnd sem og í fundarsal,“ sagði Oddný.

Fleiri þingmenn tóku undir með Oddný, svo sem Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, og Katrín Júlíusdóttir varaformaður. Einnig Róbert Marshall, Svandís Svavarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir formaður VG.

Bjarni Benediktsson svaraði fyrir verklagið við kynningu þingmálsins. „Það er gert ráð fyrir að hægt sé að dreifa þingskjölum utan þingfundar. Það er ekkert óeðlilegt við það,“ sagði Bjarni Benediktsson. Hann sakaði þingmenn minnihlutans um að reyna að koma í veg fyrir að efnisatriði þingsályktunartillögunnar fengu þinglega meðferð.