Í ársreikningum Íslandspósts fram til ársins 2012 er að finna sundurliðun á tekjum og gjöldum eftir rekstrarþáttum, skipt niður á einkaréttarrekstur, samkeppni innan alþjónustu og samkeppni utan alþjónustu. Í ársreikningunum kemur til að mynda fram að tap af einkarétti hafi árið 2011 numið um 74 milljónum en tap af samkeppnisrekstri hafi numið tæpum 200 milljónum króna.

Í ákvörðun PFS nr. 18/2013 eru gerðar alvarlegar athugasemdir við þessa framsetningu Íslandspósts. Þar er vísað til þess að samkvæmt afkomulíkani Íslandspósts hafi hagnaður af einkarétti numið um 226 millj­ónum króna það ár og að tap af samkeppnisrekstri hafi numið tæpum 500 milljónum króna. PFS segir að ekki hafi verið færð viðhlítandi rök fyrir því að 300 milljónir hafi verið færðar á milli einkaréttar og samkeppnishluta í ársreikningnum, undir formerkjum leiðréttingar. Þá kemur fram að skort hafi á rekjanleika og forsendur fyrir þessari aðgerð.

„ÍSP hefur ekki lagt fram fullnægjandi kostnaðargreiningu sem styður umrætt mat fyrirtækisins um að umframkostnaður í samkeppnisrekstri vegna alþjónustu sé framangreind fjárhæð sem ekki hafi verið mögulegt að jafna með tekjum á hagkvæmum svæðum,“ segir meðal annars í áliti PFS. Þá segir að millifærslur á milli kostnaðarliða, undir formerkjum leiðréttingar, byggi á mati stjórnenda sjálfra, en ekki á hlutlægum og gagnsæjum matsaðferðum. Þar kemur jafnframt fram að aðrir ársreikningar ÍSP séu sama marki brenndir, að kostnaður hafi verið færður á milli rekstrarþátta úr samkeppni yfir á einkaréttarstarfsemi, án viðhlítandi rökstuðnings.

Meðal annars af þessum orsökum, hvort samkeppnisrekstur hafi verið niðurgreiddur af einkaréttarrekstri, stendur nú yfir sáttameðferð ÍSP við Samkeppniseftirlitið. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir í svari við skriflegri fyrirspurn Viðskiptablaðsins að frumkvæði að sáttameðferðinni hafi komið frá stjórnendum Íslandspósts. Þetta er þvert á fullyrðingar Ingimundar Sigurpálssonar, forstjóra ÍSP, sem sagði í samtali við Fréttablaðið 3. mars síðastliðinn : „Frumkvæðið að þessari málsmeðferð var Samkeppniseftirlitsins, en ekki okkar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .