Á fundi leiðtoga Evrópusambandsins í Bratislava sagði Angela Merkel, Þýskalandskanslari að ástandið væri „alvarlegt“ innan sambandsins. Þetta kemur fram í frétt BBC um fundinn.

Taldi hún það mikilvægt að bæta öryggis- og varnarráðstafanir meðal ríkja ESB ásamt því að vinna saman við að laga efnahag ríkja sambandsins.

„Við þurfum lausnir fyrir Evrópu og ástandið er alvarlegt“ var haft eftir Merkel á vef BBC. Á fundinum í Bratislava ræða leiðtogar ríkja Evrópusambandsins um þau mál sem tengjast ekki beint útgöngu Bretlands úr ESB.

Ríki ESB hafa gjörólíkar skoðanir um hvernig á að taka á þeim flóttamannavanda sem skapast hefur innan ríkja sambandsins. Meðal annars sagði forsætisráðherra Slóvakíu að landið kæmi ekki til með að taka á móti einum múslímskum flóttamanni.