Efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins hefur gefið út greiningu á heilbrigðiskerfinu. Farið er yfir stöðuna á heilbrigðiskerfinu og hvert kerfið stefnir. Samkvæmt greiningunni blasir alvarlegur vandi við íslensku heilbrigðiskerfi, og að óbreyttu stefnir í mikinn útgjaldaauka til heilbrigðismála á komandi árum. Lagðar eru fram tillögur til að koma til móts við þær áskoranir sem framundan eru og bæta heilbrigðisþjónustu í landinu, með hagkvæmari nýtingu fjármuna að leiðarljósi.

Hver er staðan í dag?

Frá árinu 2012 hafa framlög til heilbrigðismála verið aukin. Á föstu verðlagi eru útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála meiri nú en árið 2009, og sé leiðrétt fyrir aldurssamsetningar þjóðarinnar eru útgjöldin há í alþjóðlegum samanburði. Heilbrigðismál eru þar að auki stærsti einstaki útgjaldapóstur ríkissjóðs.

Heilbrigðiskerfið glímir síðan við þrenns konar vanda. Nýliðun í heilbrigðiskerfinu er lítil og skortur er á læknum, en það kemur niður á gæðum heilbrigðisþjónustunnar. Biðlistar hafa lengst, bæði á Landspítalanum og í hjúkrunarrýmum. Síðan ríkir mikil óánægja með tækja- og húsakost á Landspítalanum.

Hvert stefnir kerfið?

Framundan eru tvær áskoranir fyrir heilbrigðiskerfið og stjórnvöld, en þær snúa að því að þjóðin er að eldast og fitna.

Íslenska þjóðin er ein sú yngsta meðal OECD ríkja, en Elli kerling mun fella Íslendinga. Þjóðin eldist hratt vegna lækkandi fæðingartíðni, aukinna lífslíka og yfirvofandi eftirlauna eftirstríðskynslóðarinnar. Á meðan öldruðum mun fjölga hratt mun fjöldi vinnandi handa á vinnumarkaði haldast nánast óbreytt. Færri skattgreiðendur munu þurfa að standa að baki hverjum lífeyrisþega, og þjónustuþörf til að sinna öldruðum mun aukast.

Síðan eru lífsstílstengdir og langvinnir sjúkdómar ein helsta lýðheilsuógn Íslendinga. Báðir þessir þættir munu kalla á mikinn útgjaldaauka til heilbrigðismála á næstu árum, að öðru óbreyttu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .