„Við stöndum frammi fyrir alvarlegustu deilum á vinnumarkaði í áraraðir. Á síðasta ári voru kjarasamningar megin þorra launafólks framlengdir með mjög hóflegum launahækkunum,“ sagði Elín Björg Jónsdóttir , formaður BSRB, í 1. maí ræðu sinni á Akureyri í dag þar sem hún var aðalræðumaður dagsins.

Elín Björg Jónsdóttir
Elín Björg Jónsdóttir

„Með þeim samningi var skapað tækifæri fyrir stjórnvöld til að byggja samfélag jafnaðar, þar sem hagsmunir heildarinnar voru settir í forgrunn. En í stað þessa að nýta þetta einstaka tækifæri og leggjast á eitt með launafólki, með því að vinna sameiginlega að bættum hag almennings héldu stjórnvöld inn á braut sérhagsmuna og ójafnaðar,“ sagði hún.

„Þær kröfur sem nú hafa verið settar fram af samtökum launafólks eru eðlilega ekki allar samhljóða og erfitt er að ráða í hver útkoma yfirstandandi kjaraviðræðna verður. En skoðanakönnun sem kynnt var fyrr í vikunni sýnir að rúmlega 90% landsmanna styðja sanngjarnar kröfur verkalýðshreyfingarinnar um hækkun lægstu launa. Það er því mikil og víðtæk stuðningsyfirlýsing við kröfur launafólks sem skiptir máli í baráttunni sem er framundan. Sanngjarnar hækkanir launa almenns launafólks eru nauðsynlegar. Og þær munu aðeins færa kjörin nær þeim viðmiðum sem stjórnvöld sjálf hafa skilgreint sem lágmarks framfærslu. Slíkar kröfur geta eðli málsins samkvæmt aldrei talist ósanngjarnar,“ sagði Elín Björg.