Verkfall er eini varnaglinn sem stéttarfélag hefur ef viðsemjendur ræða ekki við fulltrúa starfsmanna. Þetta segir Friðbert Traustason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, í leiðara í nýjasta fréttabréfi samtakanna.

„Það vill enginn fara í verkfall nema ef neyð krefur. Það er hárrétt og það má aldrei tala um verkföll af léttúð eða ábyrgðarleysi, alvarleiki vinnustöðvunar er öllum ljós. En verkfall er eini varnaglinn sem stéttarfélag hefur ef viðsemjendur sýna ekki þá ábyrgð og kurteisi að ræða beint við fulltrúa starfsmanna, samninganefnd stéttarfélagsins, um kaup og kjör, vinnutíma, jafnréttismál, réttindi og skyldur beggja aðila,“ segir Friðbert í leiðaranum.

Þetta sé augljóst núna þegar hópar opinberra starfsmanna eru ýmist komnir í verkfall eða búnir að boða verkföll. „Við þessa hópa opinberra starfsmanna var ekki rætt af alvöru fyrr en að verkfalli var komið eða verkfall skollið á. Á þetta virkilega að verða kjaraleiðin til framtíðar, að eina leiðin til að koma stjórnendum fyrirtækja til alvöru kjaraviðræðna verði að boða verkfall? Er valið að setja í bakkgírinn eftir ágætt samstarf undanfarna áratugi?“ spyr Friðbert.