Heimsmarkaðsverð á áli var komið niður í 1.351 dollar tonnið við lokun markaða í gær. Er þetta lægsta verð sem sést hefur um árabil og er komið í svipaða stöðu og í desember 2001 þegar það var 1.345 dollarar tonnið.

Fór það reyndar lægst í 1.243 dollara tonnið þann 7. nóvember 2001.   Verðlækkunin 2001 stóð í um eitt og hálft ár og það var ekki fyrr en eftir mitt ár 2003 að álverðið fór að skríða upp fyrir 1.500 dollara tonnið. Var þetta ástand þvert á spár frá árinu 2000 sem gerðu ráð fyrir að álverð færi yfir 1.700 dollar strax á árinu 2001. Á síðari hluta árs 2005 fór álverðið loks yfir 2.000 dollara markið og fór ekki niður fyrir það aftur fyrr en nú í haust eftir gríðarmikið verðfall úr nærri 3.300 dollurum í júlí á síðasta ári.