Álverð var við lokun markaða í gær skráð á 1.519 dollara tonnið samkvæmt tölum á vefsíðu recycleinme.com. Hafði það þá hífst upp að nýju eftir lækkun frá því það náð hæst í 1.551 dollara þann 8. maí. Enn er þó algjör óvissa um þróunina þar sem lítil teikn eru á lofti um aukna eftirspurn.

Verðþróunin frá 29. apríl gefur væntingar um að hugsanlega sé álverðið að hífast upp af botninum.

Í áliðnaði eru framleiðendur og úrvinnsluiðnaðurinn síður en svo af baki dottinn þrátt fyrir kreppuna. Þannig er nú unnið af fullu að undirbúningi á álviðskiptasýningunni ALUMINIUM CHINA 2009 sem haldin verður í Shanghai New International Expo Centre sýningarhöllinni (SNIEC) 30. júní til 2. júlí nk. Er búist við að sýningin verði sú stærsta sinnar tegundar í heiminum á þessu ári.

Búist er við 10.000 gestum og kaupendum frá yfir 90 löndum. Þar verður til sýnist allt það nýjasta sem framleitt er úr áli og öll nýjasta framleiðslutækni. Sýningin er eingöngu miðuð við alvöru viðskiptamenn og er meira að segja 18 ára aldurstakmark á sýninguna.