Álverð hefur ekki náð sér á strik það sem af er þessu ári og mun samkvæmt spám ekki gera það í bráð. Samtök kínverskra málmframleiðenda CNMI gera t.d. ráð fyrir að álverð verði undir kostnaðarverði þar í landi út þetta ár.   Náði álverðið hæst það sem af er ári í 1.575 dollara tonnið þann 8. janúar en stendur nú í 1.517 dollurum á LME markaði í London. Fyrir nákvæmlega einu ári var verðið 2.400 dollarar.   Þrátt fyrir að engin teikn séu á lofti um verðhækkanir á áli á næstunni, þá benda sérfræðingar á að vaxandi viðleitni sé í heiminum um sparneytnari samgöngutæki. Það leiði menn ósjálfrátt að léttmálmum á borð við ál. Lækkandi olíuverð hægi þó óneitanlega á þessari þróun, en stöðvi hana ekki til lengri tíma litið.   Er því nú spáð að í kjölfar þess að um hægist í deilumálum fyrir botni Miðjarðarhafs, þá muni fjárfestar sem fest hafi fé sitt í gulli að undanförnu, snúa sér á nýjan leik að álinu. Þó breytingar verði lítt sjáanlegar í bráð þá geti áliðnaðurinn þó huggað sig við að ljósglæta sé við enda ganganna til lengri tíma litið.   Álverðið fór lægst í 1.442 dollara dagana 16. til 22. desember. Meðalverðið á áli síðastliðinn mánuð er hins vegar 1.497,33 dollarar tonnið. Meðalverði síðastliðna tólf mánuði er 2.568,2 dollarar. Hæst náði verðið 3.292 dollurum þann 14. júlí 2008, en lækkaði síðan hratt fram til 16. desember.