Heimsmarkaðsverð á áli hefur hækkað umtalsvert að undanförnu og stóð við lokun markaða í gær í 1.798 dollurum á tonnið. Eru þetta umtalsverð umskipti frá 14. júlí, en þá var verðið 1.532 dollarar eftir að hafa staðið í 1.616 dollurum þann 1. júlí samkvæmt skráningu á LME í London.

Þrátt fyrir þessar verðhækkanir er talsvert í að álverðið nálgist kostnaðarverð flestra álvera í heiminum. Á Íslandi hefur þetta eigi að síður jákvæð áhrif á afkomu Landsvirkjunar og fleiri orkufyrirtækja þar sem orkuverðið er tengt markaðsverði á áli.