Heimsmarkaðsverð á áli helst áfram lágt og er staðgreiðsluverð nú 1.309 dollara fyrri tonnið á LME markaði í London. Samkvæmt áliti erlendra sérfræðinga eru flest ef ekki öll álver heimsins rekin með tapi um þessar mundir þó ómögulegt virðist að fá upplýsingar um afkomu íslenskra álvera.

Í framvirkjum þriggja mánaða samningum er álverðið á LME  1.341 dollar og 1.470 dollarar í samningum til 15 mánaða. Er því ekki að sjá að markaðurinn veðji á miklar hækkanir næstu misserin.

Forsvarsmenn álvera á Íslandi hafa ekkert viljað láta uppi um hvort álverin séu rekin með tapi eða ekki um þessar mundir. Erfitt er að fá upplýsingar um hvar mörkin liggja milli taps og hagnaðar þó leiða megi líkum að því að mörkin séu talsvert hærri en álverðið er í dag.

Kínversk álver eru t.d. ekki sögð þola lægra álverð en 2.000 dollara fyrir tonnið og álver í Bandaríkjunum eru sögðu þurfa minnst 2.100 dollara fyrir tonnið. Orkuverðið ræður þarna mjög miklu, en hérlendis er það tengt verðsveiflum á álinu. Óyggjandi upplýsingar liggja þó ekki fyrir um raforkuverðið til álvera á Íslandi sem haldið er leyndu sem trúnaðarmáli.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins mun væntanleg skýrsla frá Hagfræðistofnun þar sem greint er frá því að raforkuverð til áliðnaðar hérlendis sé svipað og meðaltal raforkuverðs til áliðnaðar á heimsvísu. Væntanlega verður þó að hafa þann varnagla á slíkum upplýsingum að það skiptir verulegu máli á hvaða tímapunkti slíkur útreikningur er gerður. Þegar álverð er í hæstu hæðum er raforkuverð til álvera á Íslandi talsvert hátt. Að sama skapi getur það verið mun lægra en annars staðar þegar álverð er lágt á mörkuðum. Það þýðir þá væntanlega um leið verulega tekjuskerðingu fyrir Landsvirkjun og önnur orkufyrirtæki sem selja raforku til álvera hérlendis.