Seðlabankinn spáir því að verð á áli og sjávarafurðum, tveimur helstu útflutningsvörum Íslendinga, fari hækkandi á næstu árum. Þetta kemur fram í þjóðhagsspá bankans, sem birtist í Peningamálum í síðustu viku.

Bankinn gerir ráð fyrir, í grunnspá sinni, að vegið verð sjávarafurða hækki um 3,5% milli áranna 2007 og 2008, en um 2% á árunum 2009-2010.

„Verðlag sjávarafurða í erlendri mynt hefur hækkað sleitulaust frá miðju árið 2004. Á árinu 2007 nam meðaltalsverðhækkun útfluttra sjávarafurða í erlendum gjaldmiðlum rúmlega 6%, en verðlag botnfiskafurða hækkaði um næstum 7%. Verðbreytingar einstakra tegunda hafa verið mismiklar eftir framboðs- og eftirspurnaraðstæðum. Íslenskar botnfiskafurðir hafa hækkað umfram verðlag annarrar matvöru undanfarin ár. Verðhækkun mjöl-, korn- og fóðurvöru hefur leitt til hækkunar á verðlagi brauðvöru, annars kornmetis, mjólkurvöru og alifugla. Verð annarra aðfanga til búrekstrar hefur einnig hækkað, t.d. eldsneytis og áburðar. Líklegt er að framangreindar verðhækkanir haldi áfram að koma fram í hækkun matvælaverðs til neytenda á næstu mánuðum,“ segir í Peningamálum.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .