Álverð tók kipp fyrir helgi og hækkaði um 80 dali á tonn á fimmtudag þegar nýjar tölur um birgðastöðu voru birtar í málmkauphöllinni í Lundúnum, LME. Birgðir  höfðu minnkað lítillega sem varð til að verðið hækkaði og er nú um 1600 dalir á tonn. Talið er að meðal framleiðslukostnaður sé um 1450 dalir á tonn. Þetta kemur fram í nýrri samantekt IFS-Greiningar.

Líklegt að álverð haldist stöðugt eða hækki

FS-Greining segir að enn séu álbirgðir mjög háar miðað við það sem hefur verið í gegnum tíðina og áætlar fyrirtækið að birgðirnar nemi um tveggja mánaða framleiðslu. Sl. 15 ár hafa birgðir almennt numið um hálfs mánaðar framleiðslu.

IFS-Greining segir líklegt að verð á áli verði svipað og það er nú á næstu mánuðum. Fram kemur í samantekt fyrirtækisins að flestir erlendir greinendur spái hækkandi álverði á næstu misserum vegna efnahagsbata í heiminum.