Væntingar um að álverð væri á uppleið döpruðust nokkuð síðdegis í gær er verð féll innan dagsins úr 1.519 dollurum tonnið í 1.483 dollara. Hæsta álverð frá áramótum náðist 8 janúar er það fór í 1.575 dollara tonnið samkvæmt tölum á recycleinme.com. Hins vegar er meðalverðið frá áramótum aðeins 1.380,89 dollarar sem er langt frá því að vera ásættanlegt fyrir álfyrirtækin.

Flestar álbræðslur heimsins eru taldar þurfa á bilinu 1.900 til 2.200 dollara til að vera réttu megin við strikið.Talið er að íslensku álverin geti búið við talsvert lægra verð, einkum vegna lágs orkuverðs. Einnig vegna gengisfalls krónunnar sem hefur lækkað launakostnað og annan innlendan kostnað til muna. Engar tölur hafa þó fengist um hvar þolmörkin liggja fyrir íslensku álverin, enda er orkuverð enn afgreitt sem leyndarmál vegna viðskiptahagsmuna.

Mjög mörg álver í heiminum framleiða rafmagn til rafgreiningar á súráli með kolum eða olíu sem bæði mengar meira auk þess að vera óhagkvæmara en t.d.  raforkuframleiðsla með vatnsorku og jarðhita eins og hér er gert.