Verð á áli á heimsmarkaði stendur nú í nálægt 2.100 dollurum tonnið og hefur ekki verið hærra síðan í október 2008. Er verðið nú svipað og þegar það hóf að rísa af krafti í byrjun uppsveiflunnar í ársbyrjun 2005. Ef verðið helst í þessu horfi ætti það að duga til að nær öll álver heimsins nái að reka sig réttu megin við núllið.   Þess má geta að álverin á Íslandi eru talin einhver hagkvæmustu og fullkomnustu álver heims um þessar mundir og er verðþol þeirra talið vera mun lægra. Íslensku álverin hafa þó aldrei viljað gefa upp hvar þeirra rekstarjafnvægi gagnvart álverði liggur. Bandarísku álverin eru ekki talin þola mikið lægra verð en 2.100 dollara á tonnið og talið er að þau kínversku þoli kannski hundrað til tvöhundruð dollurum lægra verð. Hagstætt raforkuverð á Íslandi og mjög lágur innlendur rekstarkostnaður vegna lágs gengis krónunnar hefur þó án efa hjálpað álverum hérlendis mikið í álverðsniðursveiflunni sem varað hefur síðan í fyrrahaust.