Michael A. Bless, forstjóri Century Aluminium, segist tilbúinn að líta á fjárfestingu fyrirtækisins í álveri í Helguvík sem sokkinn kostnað.

Málflutningur hans á kynningarfundi í Bank of America Merrill Lynch með greiningaraðilum 10. desember síðastliðinn bendir til þess að hann telur litlar líkur á að álverið rísi.

Samkvæmt endurriti af fundinum, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, segir hann ekki gengið lengra nema arðsemin fyrir hluthafa Century verði einstaklega góð. Hann segir orkuverðið sem HS Orka og Orkuveita Reykjavíkur bjóða óásættanlegt.

Engin orka á lausu

„Svona verður þetta þangað til Landsvirkjun vill hjálpa okkur til að koma verkefninu af stað á ný,“ segir Bless. Hins vegar er engin orka á lausu hjá Landsvirkjun til að selja í Helguvík og verður ekki næstu árin. Bless hefur verið upplýstur um það og af málflutningi hans má ráða að ekkert álver rísi á næstunni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Í fréttinni kemur fram að stækkun álversins á Grundartanga sé sérstaklega ábatasöm framkvæmd.