Álverð hefur lækkað á heimsmarkaði um tæp 8% undanfarinn mánuð. Verðið er þó enn 17% hærra en um síðustu áramót. Greining Íslandsbanka bendir á að enn meiru skiptir þó að þróun álverðs hefur umtalsverð áhrif á lausafjárstöðu og arðsemi innlendra orkufyrirtækja vegna tengingar raforkuverðs við álverð. Hækkandi álverð auðveldar þannig orkufyrirtækjunum, sér í lagi Landsvirkjun, að standa straum af greiðslum vegna erlendra lána og minnkar líkurnar á því að þau þurfi á einhvers konar aðstoð að halda frá ríkissjóði eða Seðlabanka, jafnvelt þótt aðgengi þeirra að erlendu lánsfé kunni að reynast takmarkað næsta kastið.

Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að skráð verð á gæðaáli á hrávörumarkaði í London var 1.834 Bandaríkjadalir á tonnið í gær. Það sem af er ári hefur verðið hæst farið í 2.070 dollara á tonnið í upphafi síðasta mánaðar. Lægst varð verðið hins vegar 1.288 dollarar á tonnið undir lok febrúar síðastliðins. Vaxandi trú manna á að hið versta sé brátt að baki í helstu hagkerfum heims hefur stutt við álverð undanfarna mánuði, líkt og raunin er með ýmsa aðra hrávöruflokka. Hins vegar hafa áhyggjur vaxið síðustu vikur af því að eftirspurn eftir iðnaðarmálmum kunni að hafa verið ofmetin í gleðinni yfir skánandi hagvaxtarhorfum, auk þess sem vísbendingar eru um að Kínverjar kunni að auka álútflutning sinn á næstunni. Bjartsýni um álverð

Sérfræðingar á markaði eru fremur bjartsýnir á þróun álverðs næsta kastið segir í Morgunkorninu. Samkvæmt samantekt Bloomberg telja þeir að jafnaði að verðið á áltonni verði að meðaltali 1.918 dollarar á næsta ári og ríflega 2.200 dollarar árið 2011. Gangi þær spár eftir verður það jákvætt fyrir íslenskt efnahagslíf. Álútflutningur á fyrstu 7 mánuðum ársins nam tæplega 85 mö.kr., sem jafngildir þriðjungi vöruútflutnings á tímabilinu. Þótt ríflega þriðjungur tekna af álútflutningi renni beint til kaupa á hráefni og hagnaður álvera á Íslandi renni á endanum til erlendra eigenda þeirra skapar hækkandi álverð álfyrirtækjunum traustari rekstrargrundvöll.