Álverð í júnímánuði var tæplega 10% lægra en þegar það var hæst í janúar sl. og um 5% lægra en í sama mánuði á síðasta ári. Örn Klausen á hagfræðisviði Seðlabanka Íslands segir að lækkunin sé helst rakin til gríðarlegrar framleiðniaukningar í Kína, þar sem framleiðslugeta á ársgrundvelli hefur aukist um 40% á milli mánaða það sem af er árinu.

"Síðastliðin tvö ár hefur notkunin aukist nokkuð hraðar en framleiðslan sem skýrir hvers vegna álverðið hefur sögulega verið tiltölulega hátt. Almennt er nú talið að verðið sé á hægri niðurleið og þannig verði þróunin næstu tvö ár. Telja menn að um frekar litlar lækkanir sé að ræða og engar stórvægilegar sveiflur séu í spilunum.

Framleiðsluaukningin í Kína á árinu hefur verið um 40% í hverjum mánuði, sem er gífurlega mikil aukning. Á móti kemur að ekki nema lítill hluti af framleiðslunni er til útflutnings en bróðurparturinn er notaður í Kína. Eins og staðan er í dag er því framboð lítillega meira en eftirspurn og það hefur dempandi áhrif á hækkanir síðustu ára. Þegar menn horfa til lengri tíma er því hins vegar spáð að þessi staða muni breytast þegar fer að líða á árið 2010 og því er ástand álmarkaðarins til lengri tíma litið tiltölulega gott," segir Örn.

Ásgeir Jónsson, forstöðumaður Greiningardeildar Kaupþings, segir breytingar á álverði ekki hafa jafnmikil áhrif á vöruskiptajöfnuð og ætla mætti í fyrstu. "Lægra álverð þýðir eðlilega að útflutningstekjur dragast saman, en á móti kemur að flytja verður inn súrál til framleiðslunnar hér á landi, sá innflutningur dregst þá jafnframt saman og áhrifin á vöruskiptajöfnuðinn verða því miklu minni en ella," segir Ásgeir.