Verð á áli hefur haldið áfram að hækka á heimsmarkaði og var á laugardag komið í 1.864 dollara tonnið. Er þetta hæsta verð sem sést hefur í tæpa níu mánuði eða síðan í nóvember 2008. Markaðssérfræðingar CRU telja þó að hækkandi gengi dollars muni draga úr álverðshækkunum sem og verðhækkunum á olíu.

Þó álverð sé nú það hæsta sem sést hefur síðan í nóvember á síðasta ári, þá má um leið segja að verðið hafi ekki verið lægra í fjögur ár, eða síðan í júlí 2005. Það þýðir að verið á enn talsvert í land með að geta talist ásættanleg fyrir álframleiðslufyrirtæki heimsins. Um leið er álverið væntanlega heldur ekki ásættanlegt fyrir íslensku orkufyrirtækin sem hafa orkusölusamninga tengda álverði.