Álverð hækkaði í vikunni sem leið eftir að hafa tekið skarpa dýfu niður á við vikuna á undan. Staðgreiðsluverð á áli fór fyrir 2.000 dollara á tonnið eftir að hafa farið úr 2.100 dollurum í rúmlega 1.800 á þremur dögum, samhliða dýfu á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum. Verð á áli hefur umtalsverð áhrif á útflutningstekjur Íslendinga þar sem álfyrirtækin þrjú, Rio Tinto Alcan, Alcoa og Norðurál, afla 30-40 prósent útflutningstekna samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni.

Auk þess tekur raforkuverð opinberu orkufyrirtækjanna, sem selja álverunum raforku, mið af álverði og því hafa skattgreiðendur hér á landi, eigendur orkufyrirtækjanna, hag að því að álverðið sé sem hæst. Álverðið fór lægst í rúmlega 1.200 dollara á tonnið í febrúar á þessu ári eftir að hafa verið í hæstu hæðum um mitt á ár í fyrra, eða um 3.300 dollurum á tonnið.