Heimsmarkaðsverð á áli hefur hækkað mikið á síðustu fjórðungum og er nú komið í 10 ára hámark en verðið hefur ekki verið jafn hátt síðan á sumarmánuðum 2011. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.

Líkt og verð flestra hrávara, lækkaði verð á áli umtalsvert þegar áhrifa faraldursins fór að gæta á síðasta ári. Meðalverð áls var 1.773 Bandaríkjadalir í janúar á síðasta ári og lækkaði það niður í 1.460 dali í maí á síðasta ári. Verðið hafði þá ekki verið lægra síðan í febrúar 2009 í fjármálahruninu þegar það fór niður í 1.330 dali.

Verð annarra málma en áls hefur sömuleiðis hækkað mikið undanfarið og er í flestum tilfellum orðið hærra en fyrir faraldur. Þannig var verð tins 91% hærra nú í maí en í janúar á síðasta ári og verð kopars 68% hærra. Þá hefur verð sinks, nikkels og blýs hækkað um 13- 30% á sama tímabili.

Verð á hrávörum hefur almennt hækkað mikið frá vormánuðum síðasta árs og er verð í sumum tilfellum orðið töluvert hærra en fyrir heimsfaraldurinn.

Hækkun auki ekki hreinar gjaldeyristekjur

Í hagsjánni kemur fram að hreinar gjaldeyristekjur þjóðarbúsins af innlendri álframleiðslu og útflutningi áls, það er laun, tekjur af rafmagnssölu, opinber gjöld og ýmis önnur vöru- og þjónustukaup, hafi á síðustu árum að litlu marki sveiflast með álverði.

Ástæðan er meðal annars sögð vera sú að laun taki ekki mið af álverði og að samningar innlendra raforkuframleiðenda við álverin hafi falið í sér fremur litla álverðstengingu.

Þannig muni þessi mikla hækkun á álverði að líkindum ekki skila sér að miklu marki í auknum nettó gjaldeyristekjum þjóðarbúsins en hún muni þó vissulega styrkja rekstrargrundvöll framleiðslunnar.