Heimsmarkaðsverð á áli (LME 3 mánaða) hefur lækkað verulega undanfarnar vikur og er komið undir $1.800/tonnið. Í síðustu viku var lokaverð um 1.793 og verðið hefur ekki verið lægra síðan í júlí 2009. Þetta kemur fram í morgunpósti IFS greiningar. IFS spáir því að ef verði loki undir 1.776 á vikugrunn þá fylgi því frekari lækkanir niður í a.m.k. 1.600.

Helstu ástæðurnar fyrir lækkun álverðs má rekja til styrkingar á gengi Bandaríkjadals og minni hagvaxtar á heimsvísu - aðallega í Kína samkvæmt IFS. Bernanke seðlabankastjóri Bandaríkjanna nefndi í síðustu viku að bankinn gæti farið að draga úr kaupum sínum á þarlendum ríkisskuldabréfum síðar á árinu, haldi hagkerfi landsins áfram að styrkjast. Það styður við gengi bandaríska dollarans.

Hagvaxtarspár fyrir helstu hagkerfi hafa enn og aftur verið lækkaðar. Áfram er þó gert ráð fyrir mestum hagvexti í Kína og öðrum nýmarkaðsríkjum. Einnig hafa nýlegar hagtölur frá landi drekans hreyft talsvert við fjármálamörkuðum. Bankakerfið í landinu býr nú við skort á fjármagni sem hefur hækkað verulega skammtíma millibankavexti. Markaðsaðilar óttast að það hafi neikvæð áhrif á hagvöxtinn, en til að reyna að draga úr miklum sveiflum hefur seðlabankinn komið fram og sagt að hann fylgist náið með vaxtaþróuninni.

Þess má geta að Júlíus Jónsson, forstjóri HS Orku, benti einmitt á í viðtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku að álverð væri of lágt í dag fyrir arðbært álver í Helguvík á sama tíma og virkjanir ættu að vera arðbærar. „Vandamálið í dag snýr helst að því að álverð er í kringum 1.800-1.900 Bandaríkjadalir á tonn. Með slíku verði sé ég ekki fyrir mér að þeir geti rekið arðbært álver og við á sama tíma arðbærar virkjanir. Þetta er ekki að skapa nægar tekjur til að ganga upp. Miðað við það sem þeir eru viljugir til að greiða fyrir orkuna þá gengur það ekki upp hjá okkur og miðað við það sem við þurfum að fá greitt þá gengur það ekki upp hjá þeim,“ sagði Júlíus meðal annars.