Heimsmarkaðsverð á áli er enn í lægri kantinum eftir að hafa tekið hressilega dýfu um miðjan ágúst þegar ótti fjárfesta um að ný efnahagskreppa væri framundan var sem mestur. Við lokun málmmarkaðarins í London í fyrradag kostaði framvirkur samningur til þriggja mánaða um afhendingu á tonni af áli 2.384,5 dali. Verð hefur því lækkað lítillega á ný eftir að hafa farið upp fyrir 2.400 dali í lok ágúst.

Það sem af er ári hefur álverð sveiflast mikið. Miðað við síðasta lokaverð hefur það lækkað um 3,3% á árinu en hafði á fyrri hluta ársins hækkað um nær 10%. Þess má geta að Seðlabankinn spáir 16% hækkun á árinu í nýjasta hefti Peningamála. Sú spá virðist víðsfjarri sem stendur.

Viðskiptablaðinu hefur borist athugasemd frá Seðlabankanum. Þar segir að spáð sé um breytingu ársmeðaltala og til þess notuð framvirk verð til þriggja mánaða og alþjóðlegar spár sérfræðinga. Meðalverð tímabilsins janúar-september sé 15% hærra en meðalverð síðasta árs og miðað við framvirk verð næstu þriggja mánaða stefni í 14% hækkun á árinu sem ekki sé fjarri 16% spá bankans.