Heimsmarkaðsverð á áli hefur lækkað um 7% frá áramótum og stendur það nú í tæpum 1.900 dölum á tonnið. Verðmiðinn á álinu fór reyndar í hæstu hæðir í mars, 2.353 dali á tonnið. Síðan þá hefur verðið lækkað um 20%.

Í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka í dag segir, að verðþróunin skýrist einkum af bakslagi í efnahagsbata Vesturlanda og veikari eftirspurnar eftir áli í Asíu en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Þá segir í Markaðspunktunum að verðfallið nú er ekki sérstaklega mikið í sögulegu samhengi, né heldur er álverð sérstaklega lágt, þótt það sé lítið eitt undir meðalverði síðustu tíu ára. Engu að síður sé fróðlegt að skoða hvaða áhrif hreyfingar á álmarkaði geti haft á afkomu stærsta orkufyrirtækis landsins, Landsvirkjunar, en tæpur helmingur söluverðmætis orku Landsvirkjunar er nú tengdur álverði beint.