Álverð hefur lækkað mikið að undanförnu og hefur ekki verið lægra síðan um mitt ár 2009 eða í meira en fjögur ár. Álverð á London Metal Exchange (LME) fór undir 1.700 dollara á tonnið í fyrsta sinn á mánudag síðan í júlí 2009. Í janúarmánuði lækkaði verð á áli um rúm 5% og hélt áfram að lækka núna fyrstu dagana í febrúar.

Reglubreytingar fram undan

Álverð lækkaði í nóvember í kjölfarið á því að tilkynnt var um reglubreytingar á birgðahaldi vöruhúsa sem geyma álbirgðir. Álverð hækkaði þó aftur í desember en hefur svo farið hratt lækkandi á nýju ári.

Umræddar reglur sem geta haft í för með sér meira útflæði af áli út úr birgðastöðvunum munu taka gildi 1. apríl næstkomandi að öðru óbreyttu. Þrátt fyrir að markaðsaðilar taki tillit til þessara fyrirhuguðu breytinga þá er ljóst að þær eru ekki fram komnar og gætu því haft frekari verðlækkun í för með sér.

Reglurnar eru settar í kjölfarið á ásökunum gegn fjármálafyrirtækjum eins og Goldman Sachs sem voru sökuð um að sjá til þess að ál héldist lengi í vöruhúsum. Fjallað var um það í New York Timesað frá því að Goldman keypti fjölda vöruhúsa fór afhendingartími áls úr sex vikum í sextán mánuði. Bankinn hefur nefnt ýmsar ástæður fyrir þessari þróun en á móti kemur að bankinn hagnast á þeim auknu leigutekjum sem koma inn vegna slíkra tafa. Því hefur einnig verið haldið fram að þetta hafi haldið uppi álverði á markaði. Birgðastaðan jókst um rúmlega tvö hundruð þúsund tonn á síðasta ári samkvæmt tölum LME.

Ljóst er að lágt álverð hefur bæði áhrif á álframleiðendur en ekki síður fyrirtæki á borð við Landsvirkjun sem selja álframleiðendum orku. Samningar eru jafnan að stórum hluta tengdir við heimsmarkaðsverð á áli og því sveiflast tekjur fyrirtækjanna með álverði þó svo að þau séu að einhverju leyti búin að verja sig fyrir slíkum sveiflum með framvirkum samningum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .