Verð á áli fór í dag yfir 3.000 dali á tonn í fyrsta skipta frá árinu 2008. Takmarkanir á framleiðslu í Kína, stærsta framleiðanda áls í heimi, hefur valdið auknum áhyggjum á skorti á málminum, að því er kemur fram í frétt Reuters .

Álverð hefur hækkað um 15% á síðustu þremur vikum við aukinn áhuga spákaupmanna á þessum markaði. Verðið hefur alls hækkað um 50% í ár. Meðalverð á málminum í fyrra var 1.727 dalir á tonn.

Stjórnvöld í Yunnan héraðinu, þar sem um 10% af álframleiðslu fer fram í Kína, hafa skipað álverum sem notast við vatnsorku (e. hydropower) að halda mánaðarlegri framleiðslu undir afköstunum í ágústmánuði, í það minnsta út árið. Álverin höfðu þegar dregið úr framleiðsluna sem nemur nærri einum milljónum tonna á ársgrunni.

Sjá einnig: Enn hækkar álverð eftir valdarán

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði við Morgunblaðið í síðustu viku að verðhækkunin muni skila Landsvirkjun milljörðum króna í auknar tekjur á ársgrundvelli.

„Þessi þróun hefur mjög jákvæð áhrif. Annars vegar leitast viðskiptavinir okkar við að keyra á fullum afköstum þegar verðið er svona hátt. Með því eykst magnið sem þeir kaupa. Þeir gera allt sem í þeirra valdi stendur til að fullnýta samningana. Síðan er hluti samninga okkar tengdur álverði. Þá sérstaklega samningurinn við Alcoa,“ var haft eftir Herði í Morgunblaðinu sem kom út á laugardaginn.