Heimsmarkaðsverð á áli heldur áfram að lækka. Við lokun málmkauphallarinnar í London á þriðjudag kostaði framvirkur samningur til þriggja mánaða um tonn af áli 2.383,5 dali og er það lægsta verð ársins til þessa. Til samanburðar má geta þess að í ársbyrjun kostaði samskonar samningur 2.467,5 dali og því hefur álverðið lækkað um tæp 4% á þessu ári. Í nýjustu Peningamálum Seðlabankans kemur fram sú spá bankans að verð á áli, sem er ein helsta útflutningsvara Íslendinga, muni hækka um 16% á árinu. Er það lækkun um eitt prósentustig miðað við spá þá sem Seðlabankinn birti í apríl.