Enn virðist ekkert lát ætla að verða á lækkun álverðs á heimsmarkaði. Þriggja mánaða framvirkur samningur um tonn af áli kostaði 2.082,5 dali í málmkauphöllinni í London við lokun í vikunni og er það lægsta dagslokaverð sem skráð hefur verið á árinu samkvæmt upplýsingum á vef Financial Times.

Meðalverð ársins er nú 2.470 dalir á tonn og hefur það lækkað um nær 50 dali á örfáum mánuðum.

Seðlabanki Íslands miðar við meðalverð árs þegar hann spáir fyrir um verðþróun á áli og ljóst er að ef fram heldur sem horfir verður bankinn að endurskoða spá sína. Það sem af er ári hefur heimsmarkaðsverð á áli lækkað um tæp 16%.