Heimsmarkaðsverð á áli hefur, eins og fram hefur komið á síðum Viðskiptablaðsins, verið í lægri kantinum undanfarnar vikur en í lok síðustu viku var þó sem allur botn væri farinn úr verðinu. Þá lækkaði verð um tæpa 150 dali á þremur dögum og við lokun málmmarkaðarins í London kostaði þriggja mánaða framvirkur samningur um tonn af áli 2.205,25 dali.

Segja má að þar með hafi áliðnaðurinn nálgast hættusvæði en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins liggja sársaukamörk margra álframleiðenda við 2.200 dala markið. Síðan þá hefur verð þó hækkað lítillega á nýjan leik en við lokun markaðar í fyrradag kostaði samskonar samningur 2.231,25 dali á tonn.