Verð á áli hefur ekki verið hærra í áratug eftir valdarán í Afríkuríkinu Gíneu. Landið er það næst umsvifamesta í heiminum í vinnslu á málmgrýtinu báxíti, en úr því er unnið súrál og úr súrálinu er svo unnið ál. FT greinir frá.

Verð á tonni á áli fór yfir 2.776 dollara á tonnið í London Metal Exchange sem er það hæsta frá því í maí árið 2011. Þá hækkaði hlutabréfaverð evrópskra og kínverskra álframleiðenda. Um 25% af öllu báxíti sem nýtt er í heiminum kemur frá Gíneu.

Markaðsaðilar hafa áhyggjur af því að valdaránið hafi áhrif á vinnslu og útflutning á báxíti frá Gíneu sem leiði til þess að álverð hækki. Meirihluti áls sem framleitt er í Kína, stærsta álframleiðsluríki heims, er unnið úr báxíti frá Gíneu.

Áhrifin ættu að ná til íslensku álveranna sem og íslensku orkufyrirtækjanna, en raforkusamningar álveranna hér á landi eru að mestu tengdir þróun á verði á áli.