Heimsmarkaðsverð á áli heldur áfram að sveiflast. Eins og fram hefur komið náði það hámarki ársins fyrir þarsíðustu helgi þegar það fór yfir 2.700 dali/tonnið en tók svo að lækka á ný og var undir lok síðustu viku komið niður í rúma 2.641 dali/tonn. Nú hefur verð hins vegar tekið að hækka enn á ný og í lok viðskipta á mánudag kostaði tonnið af áli 2.677 dali.

Hér er um að ræða viðskipti með framvirka samninga til þriggja mánaða á málmmarkaðnum í London, London Metal Exchange. Frá áramótum hefur álverð hækkað um 8,5% en Seðlabankinn hefur spáð því að á árinu hækki verð um 14%. Sú spá gæti uppfærst samhliða útgáfu Peningamála í dag.