Álverð í heiminum í dag er of lágt til að hægt sé að byggja arðsamt álver í Helguvík og á sama tíma arðbærar virkjanir  til að sjá álverinu fyrir orku.

Þetta segir Júlíus Jónsson, forstjóri HS Orku, í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu í dag þar sem meðal annars er fjallað um stöðuna við byggingu álvers í Helguvík. Sem kunnugt er hefur HS Orka átt í viðræðum við Norðurál um sölu á raforku fyrir fyrirhugað álver í Helguvík síðustu ár. Fyrirtækin eiga enn í viðræðum, m.a. um verð á raforku, en enn liggur ekkert fyrir um niðurstöðu þeirra viðræðna.

„Við viljum endilega fá niðurstöðu í þetta mál sem fyrst og helst myndum við vilja ljúka því þannig að haldið verði áfram uppbyggingu álvers í Helguvík,“ segir Júlíus aðspurður um stöðu málsins.

„Það er enn verið að ræða saman þessa dagana. Vandamálið í dag snýr helst að því að álverð er í kringum 1.800-1.900 Bandaríkjadalir á tonn. Með slíku verði sé ég ekki fyrir mér að þeir geti rekið arðbært álver og við á sama tíma arðbærar virkjanir. Þetta er ekki að skapa nægar tekjur til að ganga upp. Miðað við það sem þeir eru viljugir til að greiða fyrir orkuna þá gengur það ekki upp hjá okkur og miðað við það sem við þurfum að fá greitt þá gengur það ekki upp hjá þeim. En við þurfum að reyna til þrautar að finna ásættanlega lausn fyrir báða aðila. Þetta er kaldi veruleikinn sem við erum að fást við og spár um álverð gefur ekki til kynna að það muni hækka að raunvirði í nánustu framtíð. En viðræður eiga sér enn stað.“

Nánar er rætt við Júlíus í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu í morgun. Þar fer Júlíus yfir stöðuna sem snýr að væntanlegu álveri í Helguvík, orkunýtingu og mögulegri atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum, viðhorf stjórnmálamanna gagnvart orkunýtingu og stóriðju, stöðu orkufélaga í einkaeigu og margt fleira. Þá tjáir Júlíus sig einnig um fjaðrafokið sem varð þegar kanadískir fjárfestar keyptu HS Orku fyrir þremur árum síðan.