Heimsmarkaðsverð á áli hefur lækkað nokkuð skarplega undanfarna daga eftir nær samfellt hækkunartímabil frá því í febrúar á þessu ári.

Staðgreiðsluverð á áli, samkvæmt upplýsingum frá London Metal Exchange, er nú 1.860 dollarar á tonnið en fyrir viku fór verðið í fyrsta skipti yfir 2.000 dollara frá því í febrúar.

Þá var það um 1.260 dollarar en í síðustu viku var verðið um 2.100 dollarar. Hækkanirnar hafa orðið samfara uppgangstímum á hlutabréfamörkuðum.

Lækkunin á verðinu, úr 2.100 dollurum á tonnið í 1.860 dollara, kom einnig fram samhliða skarpri lækkun á hlutabréfamörkuðum í kjölfar þess að 8 fjármálastofnanir í Bandaríkjunum urðu gjaldþrota.

Spár um þróun álverðsins eru misvísandi. Íslendingar eiga töluvert mikið undir álverði þar sem um 34 prósent af útflutningstekjum landsins koma þaðan.