Fjárfesting Norðuráls í fyrsta áfanga 270 þúsund tonna álvers í Helguvík er áætluð 50 milljarðar króna og má ætla að ríflega 4.000 ársverk þurfi til byggingar álversins. Í heildina verða til um 10.000 ársverk. við bygginguna og tengdar framkvæmdir.

Greining Íslandsbanka fjallar um álverið í Helguvík í tengslum við umfjöllum Fréttablaðsins um helgina. Þar var haft eftir forstjóra Century Aluminum, móðurfélagi Norðurárls, að samningar um orku fyrir álverið séu á lokametrunum. Gangi það eftir geti framkvæmdir við álver hafist næsta vor og framleiðsla þar tveimur árum síðar.

Í Morgunkorni Greiningar segir að „... ljóst er að ef af verður þá fer hagvaxtaráhrifa að gæta strax á næsta ári, en í opinberum spám, þ.m. t. okkar, hefur ekki verið gert ráð fyrir þessum áhrifum fyrr en árið 2014. Má þá búast við að fjárfesting sem ekki var gert ráð fyrir fyrr en 2014 færist fram á næsta ár.“

„Til viðbótar við fjárfestingu  Norðuráls er gert ráð fyrir að fjárfesta þurfi fyrir 100 ma. kr til viðbótar í orku til handa álverinu en orkuþörf 270 þúsund tonna álvers nemur  450 MW.  Í heildina er því fjárfesting tengd hverjum áfanga fyrir sig  um það bil 85 ma. kr. Mikil óvissa hefur ríkt um orkuna fyrir Helguvík og hefur verkefnið tafist vegna þessa. Áætlanir gera ráð fyrir að álverið í Helguvík fái orku hjá OR af Hellisheiði og Hverahlíð, en þá er einnig von á orku frá HS sem myndi fást úr stækkun Reykjanesvirkjunar,“ segir í Morgunkorninu.