Rio Tinto Alcan á Íslandi hefur boðið starfsmönnum sínum launahækkun sem nemur 18,7% til ársloka 2018. Þetta kemur fram í opnu bréfi sem Rannveig Rist, Rio Tinto Alcan á Íslandi, hefur sent á starfsmenn félagsins. Til viðbótar standi starfsmönnum til boða nýir bónusar sem jafngildi allt að 8% launahækkun til viðbótar, að því er segir í bréfinu.

„Hafa ber í huga að álverð hefur hríðfallið frá áramótum og hefur ekki verið lægra í ein sex ár. Afleiðingin er að ISAL er nú rekið með tapi frá degi til dags og tapið fer vaxandi," segir í bréfinu, en jafnframt kemur fram að álverið berjist nú í bökkum vegna markaðsaðstæðna.

Rannveig telur að ofangreint tilboð sé það hæsta sem mögulega verði hægt að bjóða starfsmönnum álversins og að ekki verði fallið frá kröfu um heimild til verktöku. „Að sjálfsögðu stendur sú krafa áfram að ISAL fái heimild til að bjóða út áður tilgreinda verkþætti, en í þeim efnum býr ISAL við mestu fjötra allra fyrirtækja á Íslandi. Eins og fram hefur komið erum við tilbúin að ræða hvernig koma megi til móts við starfsmenn sem þetta hefði áhrif á."

Yfirvinnubann ógni öryggi

Yfirvinnubann hefur staðið yfir af hálfu starfsmanna Rio Tinto undanfarnar sex vikur, en af lestri bréfs Rannveigar má ráða að hún hefur áhyggjur af stöðu mála.  „Aðgerðirnar svipta fyrirtækið sölutekjum, þær svipta starfsmenn launum, þær skaða orðspor ISAL meðal viðskiptavina okkar og þær valda töfum í rekstrinum sem geta haft mjög alvarleg áhrif."

Þá kemur fram að umframál í kerum hafi nýlega verið orðið 900 tonn vegna tafa í áltöku. „Þetta eru hærri tölur en ég hef nokkurn tímann séð og áreiðanlega nálægt mörkum þess sem óhætt er að búa við með tilliti til öryggis. Margar brúnir eru þess eðlis að það er vel hægt að aka meðfram þeim. En það getur verið hættuspil og lítið má útaf bregða. Öryggi starfsmanna er okkar mesta forgangsmál og fyrr slökkvum við á kerskála en að stefna starfsfólki okkar í hættu," segir í bréfinu.

Tíminn að renna út fyrir starfsmenn

Í bréfinu kemur fram að verði ekki gengið að núverandi tilboði Rio Tinto verði launatilboð þeirra lækkað þegar fram líða stundir. „Við höfum því gert viðsemjendum okkar grein fyrir að miði viðræðunum ekkert áfram munum við endurskoða tilboð okkar og hörfa nær því sem samið var um á almennum vinnumarkaði í sumar og nær því sem fyrirtækið hefur ráð á í ljósi markaðsaðstæðna."