Margvísleg óvissa virðist vera uppi um framtíð uppbyggingar stóriðju á Íslandi þrátt fyrir yfirlýstan vilja ráðamanna til að þar verði gefið í til að mæta niðursveiflunni.

Ljóst er að ekki skortir áhuga stórfyrirtækja á að kaupa ódýra orku hér á landi, en fjármögnun slíkra verkefna er aftur á móti orðin mikið vandamál í efnahagskreppunni.

Nýjasta dæmið um það er Norðurál sem er eini álframleiðandinn hérlendis sem hafði þá stefnu að nýta sér íslenska banka við sín fjármögnunaráform. Þannig voru bæði Landsbanki og Kaupþing lykillinn að fjármögnun Norðuráls varðandi nýtt álver í Helguvík. Eftir hrun bankanna eru þau mál í uppnámi.

Helsta vonin í dag gæti því verið bundin hugmyndum um stækkun álversins í Straumsvík sem Hafnfirðingar vildu þó ekki sjá í íbúakosningum. Fyrirtækið hefur nýverið ítrekað vilja sinn til stækkunar.

Ágúst F. Hafberg, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og samskipta hjá Norðuráli, segir að verið sé að skoða öll þessi mál upp á nýtt en ekkert lát sé þó enn á framkvæmdum ÍAV við álversbygginguna við Helguvík.

„Við erum þó ekkert eða gefa í, og erum nú að fara yfir fjármögnunina.“ segir Ágúst. „Þá erum við að reyna að ná niður kostnaðinum, enda augljós tækifæri til þess núna.“

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í aukablaði um atvinnulíf sem fylgir með Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .