Lyfjafyrirtækið Alvogen mun á næstu þremur árum styðja menntaverkefni UNICEF í Madaskar. Verkefnið miðar að því að veita stúlkum tækifæri til að ganga í skóla. Framlag Alvogen er metið á að minnsta kosti 30 milljónir króna fram til 2015. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá UNICEF.

Mun færri stúlkur en drengir ganga í skóla í Madagaskar og er verkefninu ætlað að fjölga stúlkum í efri bekkjum grunnskóla. Eldri stúlkum sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður verður hjálpað að sækja nám, boðin heimavist, stuðning við heimanám eða fá hjól til að komast í skólann ef vegalengdir eru miklar. Einnig verða skólagjöld greidd. Um 80% íbúa Madagaskar búa við fátækt:

„Að gefa stúlkum tækifæri sem þær annars hefðu ekki fengið er aðdáunarvert framtak hjá Alvogen og með þessu sýnir fyrirtækið mikilvægt frumkvæði. Menntaverkefni UNICEF í Madagaskar hefur þegar skilað miklum árangri og við erum bjartsýn á að stuðningur Alvogen í baráttunni muni breyta og bæta líf ótal barna í landinu,“ segir Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

„Við hjá Alvogen viljum leggja okkar að mörkum við það að gera heiminn að betri stað. UNICEF er leiðandi á heimsvísu í hjálparstarfi fyrir börn. Samtökin vinna öflugt og gott starf sem við treystum og viljum styðja,“ segir Halldór Kristmannsson, framkvæmdastjóri samskiptasviðs hjá Alvogen.