Framlög úr góðgerðarsjóði Alvogen, Better Planet, og starfsmanna fyrirtækisins hafa skilað því að Unicef, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur getað reist og tekið í notkun þrjú kennsluhús fyrir 180 börn í Madagaskar. Húsin eru fullbúin, með húsgögnum og námsgögnum fyrir börnin. Reynt er að styrkja börn sem standa höllum fæti af ýmsum ástæðum, s.s. ungar stúlkur sem búa við félagslega erfiðleika og fátæk börn.

Framlög úr sjóði Alvogen námu 7,6 milljónum króna í fyrra og hefur fyrirtækið gert samning við Unicef um veitingu styrks í tvö ár til viðbótar.

Flóki Guðmundsson hjá Unicef, segir í samtali við VB.is samstarfið við Alvogen mikilvægt. „Það skipti máli í langtímauppbyggingu að hafa samstarfsaðila sem er tilbúinn að leggja í langferð.“