Alþjóðlega lyfjafyrirtækið Alvogen undirbýr nú byggingu Hátækniseturs sem mun hýsa alþjóðlegar skrifstofur Alvogen og þróun- og framleiðslu líftæknilyfja. Fyrirhugað er að þróa og framleiða samheitalyfja útgáfu sex líftæknilyfja sem eru nú þegar á markaði og markaðssetja þau þegar einkaleyfi þeirra renna út. Ekki er búið að taka endanlega ákvörðun um staðsetningu setursins, en í tilkynningu segir að Ísland og Malta séu ákjósanlegir staðir. Endanleg ákvörðun verður tekin á næstu vikum.

ætlað er að framkvæmdir við byggingu hússins hefjist á næstu mánuðum og að þeim ljúki fyrir lok árs 2014. Fyrirhugað er að Hátæknisetrið muni hýsa um 200 starfsmenn félagsins á næstu árum. Gert er ráð fyrir að fyrstu líftæknilyf Alvogen verði markaðssett árið 2019 en félagið mun þó hefja starfsemi í ársbyrjun 2015. Þróunarvinna vegna lyfjanna er nú þegar hafin í samstarfi við alþjóðleg lyfjafyrirtæki.

Dr. Fjalar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Gæðasviðs Alvogen mun stýra hönnun og uppbyggingu Hátækniseturins, sem meðal annars hefur verið unnin í samstarfi við íslensk fyrirtæki. Í tilkynningu er haft eftir honum að áhugavert væri að byggja upp líftæknilyfjastarfsemi á Íslandi og að fýsileikakönnun á þeim valkosti sé langt komin.

Eins og áður segir þykja Ísland og Malta ákjósanlegir staðir fyrir lyfjaþróun, en einkaleyfaumhverfi þessarra landa gerir fyrirtækjum kleift að hefja þróun og framleiðslu lyfja áður en einkaleyfi þeirra renna út. Í tilkynningunni segir að þetta skapi ákveðið samkeppnisforskot fyrir Alvogen. Undanfarna mánuði hafi Alvogen lagt mat á ákjósanlega staðsetningu fyrir starfsemina og muni ákvörðun liggja fyrir á næstu vikum.