Lyfjafyrirtækið Alvotech heldur áfram að bæta við sig vísindamönnum á Íslandi. Frá áramótum hefur fyrirtækið auglýst 32 ný störf og nú þegar hefur verið ráðið í 15 þeirra að því er segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

Um er að ræða fjölbreytt störf fyrir vísindamenn framtíðarinnar og eru meðal annars á sviði þróunar mæliaðferða, þróunar-og framleiðslu líftæknilyfja, gæðaeftirlits auk þess sem ráðið verður í ýmsar stoðdeildir Alvotech til að styðja við áframhaldandi vöxt fyrirtækisins.

Alvotech er systurfyrirtæki alþjóðlega samheitalyfjafyrirtækisins Alvogen og höfuðstöðvar þess eru innan Vísindagarða Háskóla Íslands.  Róbert Wessman er forstjóri Alvogen og stofnandi Alvotech og Rasmus Rojkjaer er forstjóri fyrirtækisins.

Skóflustunga var tekin að nýju hátæknisetri í Vatnsmýrinni í október 2013 og húsnæði systurfyrirtækjanna var formlega tekið í notkun fyrir um tveimur árum. Nú starfa um 250 vísindamenn hjá Alvotech í þremur löndum, sem vinna að uppbyggingu leiðandi fyrirtækis í þróun og framleiðslu líftæknilyfja.

Alvogen hefur frá árinu 2011 selt líftæknilyf á mörkuðum sínum í Mið- og Austur Evrópu og mun selja lyf Alvotech á markaðssvæðum sínum í 35 löndum þegar einkaleyfi þeirra renna út.