*

sunnudagur, 29. nóvember 2020
Innlent 21. október 2020 10:06

Alvotech fá 9 milljarða fjárfestingu

Núverandi fjárfestar hyggjast leggja til 30 milljónir dala í 100 milljóna hlutafjárútboði í aðdraganda skráningar á markað.

Ritstjórn
Róbert Wessman er stofnandi og stjórnarformaður Alvotech.
Aðsend mynd

Stórir fjárfestar úr lyfjageirum Bandaríkjanna, Evrópu og Asíu munu fjárfesta 65 milljónum Bandaríkjadala, eða andvirði um 9 milljarða íslenskra króna í íslenska lyfjafyrirtækinu Alvotech að því er Fréttablaðið greinir frá.

Fyrirtækið hefur unnið að útgáfu á nýju hlutafé að fjárhæð 100 milljóna dala sem vænst er að ljúki í næsta mánuði en meðal þeirra sem skoða þátttöku eru íslenskir lífeyrissjóðir. Núverandi eigendur hyggjast leggja 30 milljónir dala í félagið í hlutafjáraukningunni, en stefnt er að fá 70 milljónir dala frá nýjum fjárfestum.

Meirihluti félagsins er í dag í eigu Aztiq Pharma sem er undir forystu stjórnarformanns Alvotech, Róbert Wessman, auk þess sem systurfélagið Alvogen er stór hluthafi. Inní systurfélaginu eru margir stórir fjárfestar eins og CVC Capital Management, Temasek fjárfestingarsjóðurinn í Singapúr, Yas Holding og lyfjafyrirtækið Fuji Pharma frá Japan.

Fjármögnuninni nú er ætlað að styðja við reksturinn fram að skráningu fyrirtækisins á markað í Hong Kong á næsta ári Viðskiptablaðið hefur fjallað um, en samkvæmt fjárfestakynningu nú er markaðsvirði félagsins talið vera um 1,4 milljarður dala, andvirði um 195 milljarða íslenskra króna.

Fjárfestar lagt félaginu til 340 milljónir dala

Frá stofnun hafa hluthafar lagt félaginu til 340 milljónir dala, auk 300 milljóna dala breytanlegs skuldabréfs, en lykilfjárfestir í því var Morgan Stanley en því verður breytt í hlutafé við skráningu fyrirtækisins erlendis.

Tap félagsins á síðasta ári nam 140 milljónum dala enda engar tekjur komnar enn af lyfjasölu, en nýr samstarfssamningur við Teva Pharmaceuticals er sagður tryggja félaginu 100 milljarða króna tekjur á næstu árum.

Auk þess að styðja við reksturinn hyggst félagið stækka hátæknisetur sitt í Vatnsmýri, úr þeim 13 þúsund fermetrum sem það er nú í 24 þúsund fermetra, fyrir 4,6 milljarða króna. Jafnframt verði ráðnir 70 vísindamenn og sérfræðingar inn í félagið þar sem nú starfa um 480 manns.

Stikkorð: Róbert Wessman Alvotech Humira