Hlutabréfaverð Alvotech hækkaði um 2,5% í tæplega 250 milljóna króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag en gengi bréfanna hækkaði einnig um 10,5% í gær.

Hlutabréfaverð líftæknifyrirtækisins stóð í 1.450 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar og er um 20% hærra en við lokun Kauphallarinnar á mánudaginn þegar það náði sínu lægsta gengi í ár í 1.200 krónum.

Gengi bréfanna er þó enn um 24% lægra en við lokun markaða 13. apríl, áður en félagið tilkynnti um að Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) væri ekki tilbúið að veita markaðsleyfi fyrir lyfjahliðstæðu við gigtarlyf Humira í Bandaríkjunum að svo stöddu.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,2% í 2,4 milljarða króna viðskiptum á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka sem lækkuðu um 1% í 400 milljóna viðskiptum.

Icelandair, sem birti uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung eftir lokun markaða í gær, lækkaði mest af félögum eða um 4,4% í 370 milljóna viðskiptum. Gengi Icelandair stóð í 1,97 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar.

Flugfélagið Play, sem er skráð á First North-markaðinn, birti einnig uppgjör eftir lokun markaða í gær. Hlutabréfaverð Play lækkaði um 9% í 52 milljóna veltu og stendur nú í 12,2 krónum á hlut.