Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,3% í 1,2 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Það er heldur minna en gengur og gerist en til samanburðar var veltan á hlutabréfamarkaðnum að meðaltali 3,4 milljarðar króna á dag í apríl.

Alvotech hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 5,2% í 57 milljóna króna veltu. Gengi líftæknifyrirtækisins stóð í 1.120 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar og er enn um fimmtungi lægra en í byrjun mánaðarins. Auk Alvotech þá hækkuðu hlutabréf Regins og Haga um meira en 1%, en þó í lítilli veltu.

Gengi hlutabréfa Marels féll um 1,6% í hundrað milljóna veltu og stendur nú í 435 krónum á hlut. Hlutabréfaverð félagsins er um 25% lægra en í byrjun maí en gengið féll töluvert við birtingu uppgjörs 3. mars síðastliðinn. Gengi Festi og Ölgerðarinnar féll einnig um meira en 1% í dag.

Velta á íslenska skuldabréfamarkaðnum nam 11 milljörðum króna í dag. Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisskuldabréfa lækkaði í flestum flokkum en hækkaði í tilviki verðtryggðra ríkisbréfa.