Alvotech, systurfyrirtæki Alvogen, mun ráða í 50 fyrstu störfin við nýtt Hátæknisetur í Vatnsmýrinni á næstu mánuðum. Nú auglýsir félagið eftir 35 háskólamenntuðum Íslendingum með raunvísindabakgrunn og á fyrri hluta næsta árs verður ráðningum haldið áfram.

Í nóvember 2013 hófust framkvæmdir við nýtt Hátæknisetur sem verður um 13 þúsund fermetrar að stærð. Innan Hátæknisetursins verður unnið að þróun og framleiðslu líftæknilyfja og áætlað er að húsið verði tekið í notkun í ársbyrjun 2016. Sex líftæknilyf eru nú í þróun hjá Alvotech í samvinnu við erlenda samstarfsaðila og fyrstu lyf fyrirtækisins fara á markað árið 2018 þegar einkaleyfi þeirra renna út.

Lyfin eru háþróuð stungulyf og m.a. notuð við krabbameini og gigtarsjúkdómum. Sala frumlyfjanna á árinu 2013 á heimsvísu var um 15 milljarðar evra. Alvotech mun sjá um þróun og framleiðslu lyfjanna en Alvogen og önnur lyfjafyrirtæki munu sjá um markaðssetningu þeirra.

„Uppbygging Alvotech er langtímaverkefni og markmið okkar er að komast í fremstu röð samheitalyfjafyrirtækja á þessu sviði. Við höfum ráðið til okkar reynslumikla erlenda lykilstjórnendur og nú leitum við að öflugum íslenskum liðsmönnum til að taka þátt í þessu með okkur,“ segir Róbert Wessman, stjórnarformaður og stofnandi Alvotech.

Búast má við því að um 200 ný störf verði til í tengslum við starfsemina á næstu árum. Sækja má um ný störf hjá Alvotech á vefnum á slóðinni http://storf.alvotech.is.