*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 7. júlí 2021 10:11

Alvotech í bandaríska kauphöll

Félagið skoðar tvískráningu á bandarískan og íslenskan markað og er sagt hafa sótt sér um 250 milljónir dollara í gegnum samruna við sérhæft yfirtökufélag.

Ritstjórn
Róbert Wessman, forstjóri Alvotech.
Aðsend mynd

Ís­lenska líf­tækni­fyrir­tækið Al­vot­ech er sagt vera að skoða þann val­kost að verða skráð á markað hér­lendis sam­fara skráningu á banda­rískum markaði í haust.

Markaðurinn greindi frá því í morgun að fé­lagið stefndi að skráningu á markað vestan­hafs síðar á þessu ári i í gegnum sam­runa við sér­hæft yfir­töku­fé­lag (SPAC).

Verði samruninn að veruleika er áætlað að Alvotech muni sækja um 250 milljónir dollara, um 31 milljarð íslenskra króna, samhliða því að nýir utanaðkomandi fjárfestar verði fengnir inn til að fjárfesta í SPAC-félaginu. Kaup­gengið við sam­runann verður svipað því þegar hluti eig­enda breyti­legra skulda­bréfa í fé­laginu breytti þeim í hluta­bréf.

„Á­ætlað er að til­kynnt verði um skráningar­á­form Al­vot­ech vestan­hafs í næsta mánuði og að á­skrifta­söfnun vegna hluta­fjár­út­boðsins hefjist á komandi vikum, að sögn þeirra sem þekkja vel til," segir í frétt Markaðarins. Í kjöl­far út­boðsins verður fé­lag skráð í Kaup­höllina í New York (NYSE) eða Nas­daq-kaup­höllina í Banda­ríkjunum.

Fé­lagið vonast til þess að geta sótt um 150 til 175 milljónir dollara, 18 til 22 milljarða ís­lenskra króna, með hluta­fjár­út­boði í að­draganda skráningar í kaup­höllina, en það verður að mestu sótt frá er­lendum fjár­festum. Þá eru Lands­bankinn og Arion banki sagðir vera að meta eftir­spurn frá ís­lenskum fag- og stofnana­fjár­festum.

Fé­lagið hefur daðrað við hluta­fjár­út­boð og skráningu á markað í tölu­verðan tíma. Í byrjun síðasta árs greindi Við­skipta­blaðið frá því að fé­lagið væri að horfa til skráningar á markað í Hong Kong eða New York. Fé­lagið hefur nú sett stefnuna á banda­rískan markað og má rekja þá á­kvörðun til upp­gangs sér­hæfðra yfir­töku­fé­laga sam­kvæmt Markaðnum.

Með sam­runa við sér­hæft yfir­töku­fé­lag komast fé­lög hjá því að skrá fé­lagið sér­stak­lega á markað í gegnum öfugan sam­runa og þurfa þá ekki að fara í gegnum þá grann­skoðun sem fylgir skráningu. Fyrr í vetur sótti fé­lagið um 100 milljónir dollara, 12 milljarða króna, í lokuðu hluta­fjár­út­boði.

Uppfært: Í upphaflegu fréttinni stóð að félagið hefði gengið frá 250 milljón dollara fjármögnun og að félagið yrði skráð á markað í næsta ári. Rétt er að áform um skráningu verða tilkynnt í næsta mánuði og að gengið verði frá fjármögnun samfara svokallaðari PIPE fjármögnun.

Stikkorð: Alvotech