Hlutabréf Alvotech á íslenska First North-markaðnum hafa lækkað um 8,7% í 27 milljóna veltu í dag. Gengi líftæknifyrirtækisins stendur nú í 1.032 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra frá því að bréfin voru tekin til viðskipta hér á landi þann 23. júní síðastliðinn.

Lækkunin í dag fylgir 10% lækkun á gengi hlutabréfa Alvotech á bandaríska Nasdaq-markaðnum í gær. Hlutabréfaverð Alvotech stóð í 7,0 Bandaríkjadölum á hlut við lokun markaða vestanhafs í gær og hefur ekki verið lægra frá skráningu þann 16. júní síðastliðinn í kjölfar samruna við sérhæfða yfirtökufélagið Oaktree Acquisition Corp. II.

Gengi Alvotech stóð í 11,19 dölum á hlut við lokun markaða á fyrsta viðskiptadeginum á bandaríska Nasdaq-markaðnum. Verðið hefur lækkað um 37,4% síðan þá.