Alvotech og kínverska lyfjafyrirtækið Yangtze River Pharmaceutical Group hafa gert samstarfssamning um þróun, framleiðslu og markaðssetningu átta líftæknilyfja Alvotech í Kína. Umrædd lyf eru í hópi stærstu líftæknilyfja á heimsvísu, að því er segir í fréttatilkynningu.

Lyfin verða framleidd í nýrri lyfjaverksmiðju sem nú er í byggingu í Changchun í Kína. Hátæknisetur Alvotech á Íslandi mun þróa og framleiða lyf fyrirtækisins fyrir alla aðra markaði. Að sögn Róberts Wessman, stofnanda og stjórnarformanns Alvotech, tryggir samstarfið Alvotech aðgang að stórum og mikilvægum lyfjamarkaði í Kína.

Yangtze River Pharmaceutical Group var stofnað árið 1971 og er eitt af stærstu lyfjafyrirtækjum í Kína, sem er næst stærsti lyfjamarkaður heims. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Taizhou í Kína.

Alvotech hefur nýlega tilkynnt um samstarf við Teva Pharmaceuticals í Bandaríkjunum, STADA í Evrópu, Fuji Pharma í Japan, JAMP Pharma í Kanada og Yas Holding í Mið- Austurlöndum.