*

sunnudagur, 24. janúar 2021
Innlent 24. nóvember 2020 11:49

Alvotech landar samningi í Kína

Alvotech og eitt stærsta lyfjafyrirtæki Kína hafa gert samstarfssamning vegna átta líftæknilyfja.

Ritstjórn
Róbert Wessman stjórnarformaður og stofnandi Alvotech.
Aðsend mynd

Alvotech og kínverska lyfjafyrirtækið Yangtze River Pharmaceutical Group hafa gert samstarfssamning um þróun, framleiðslu og markaðssetningu átta líftæknilyfja Alvotech í Kína. Umrædd lyf eru í hópi stærstu líftæknilyfja á heimsvísu, að því er segir í fréttatilkynningu.

Lyfin verða framleidd í nýrri lyfjaverksmiðju sem nú er í byggingu í Changchun í Kína. Hátæknisetur Alvotech á Íslandi mun þróa og framleiða lyf fyrirtækisins fyrir alla aðra markaði. Að sögn Róberts Wessman, stofnanda og stjórnarformanns Alvotech, tryggir samstarfið Alvotech aðgang að stórum og mikilvægum lyfjamarkaði í Kína. 

Yangtze River Pharmaceutical Group var stofnað árið 1971 og er eitt af stærstu lyfjafyrirtækjum í Kína, sem er næst stærsti lyfjamarkaður heims. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Taizhou í Kína.

Alvotech hefur nýlega tilkynnt um samstarf við Teva Pharmaceuticals í Bandaríkjunum, STADA í Evrópu, Fuji Pharma í Japan, JAMP Pharma í Kanada og Yas Holding í Mið- Austurlöndum.

Stikkorð: Alvotech