Alvotech og sérhæfða yfirtökufélagið Oaktree Acquisition Corp. II (OACB) hafa boðað til hluthafafundar í OACB þar sem tillaga um áætlaðan samruna félaganna verður borin upp til samþykktar. Verði tillögurnar samþykktar, er gert ráð fyrir að samruna félaganna ljúki um eða upp úr 15. júní, að uppfylltum öðrum skilyrðum fyrir viðskiptunum. Fundurinn verður haldinn þriðjudaginn 7. júní næstkomandi kl. 14 að íslenskum tíma.

„Hvert atkvæði skiptir máli og OACB hvetur alla hluthafa til að láta rödd sína heyrast með því að greiða atkvæði rafrænt eða bréflega eins fljótt og auðið er, án tillits til eignarhluta viðkomandi,“ segir í fréttatilkynningu.

Bandaríska verðbréfaeftirlitið (SEC) hefur tekið við og staðfest gildistöku endanlegrar skráningar-lýsingar á eyðublaði F-4 sem félögin lögðu inn til samþykktar vegna hins áætlaða samruna og töku verðbréfa til viðskipta. OACB hefur jafnframt lagt inn samrunagögn til SEC og mun byrja að senda hluthöfum gögnin fyrir hluthafafundinn á morgun.

Þegar samruna félaganna er lokið er gert ráð fyrir að hlutir í Alvotech verði teknir til viðskipta í Nasdaq kauphöllinni í New York og á First North-markaðnum í Reykjavík, undir auðkenninu „ALVO“. Þá munu áskriftarréttindi í félaginu verða tekin til viðskipta undir nýja auðkenninu „ALVOW“, á Nasdaq markaðnum.