Viðskipti með hlutabréf Alvotech færðust af íslenska First North-markaðnum yfir á aðalmarkað Kauphallarinnar í morgun. Hlutabréfaverð Alvotech hefur hækkað um meira en 15% í 52 milljóna króna viðskiptum í dag.

Gengi Alvotech stendur í 1.200 krónum þegar fréttin er skrifuð og hefur nú hækkað um meira en 50% frá því að dagslokagengi félagsins fór lægst í 786 krónur á hlut þann 22. nóvember síðastliðinn.

Alvotech var tvískráð í Nasdaq kauphöllina í New York og First North markaðinn á Íslandi í júní síðastliðnum.

„Alvotech er fyrsta íslenska fyrirtækið til að vera tekið til viðskipta á markað bæði í Bandaríkjunum og á Íslandi. Það er okkur ‏því mikil ánægja að viðskipti geti nú hafist með bréfin á Aðalmarkaðnum. Það gerir gerir breiðari hópi kleift að fjárfesta í bréfum fyrirtækisins, “ segir Róbert Wessman, stofnandi og starfandi stjórnarformaður Alvotech, í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í morgun.

Með skráningu á aðalmarkaðinn vill Alvotech ná til breiðari hóps fjárfesta og eiga möguleika á að vera meðal skráðra fyrirtækja hér á landi sem komast inn í nokkrar nýmarkaðsvísitölur hjá vísitölufyrirtækinu FTSE Russell.

Róbert sagði við Viðskiptablaðið í desember 2021, þegar áform um tvískráningu voru kynnt, að tæknilega hafi verið of flókið að skrá fyrirtækið á tvo aðalmarkaði á sama tíma og því var First North-markaðurinn valinn fyrst um sinn.

„Alvotech er skráð, alþjóðlegt fyrirtæki á sviði líftæknilyfjahliðstæða. Við höfum þegar fjárfest fyrir yfir 150 milljarða króna til að byggja upp fullkomna aðstöðu til að þróa og framleiða hagkvæmari líftæknilyf sem geta bætt lífsgæði sjúklinga um allan heim,“ segir Róbert enn fremur.